Ferill 834. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 2009  —  834. mál.




Svar


umhverfis- og auðlindaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um ræstingarþjónustu.


     1.      Hvernig er ræstingu sinnt hjá ráðuneytinu og stofnunum þess? Óskað er sundurliðunar eftir stofnunum og að fram komi kostnaður árið 2019 þar sem þjónustan var aðkeypt og meðalfjöldi stöðugilda árið 2019 þar sem ræstingu er sinnt af starfsfólki á launaskrá.
    Fyrirkomulag ræstinga hjá ráðuneytinu og 14 stofnunum þess er á þá leið að í öllum tilfellum er um aðkeypta þjónustu að ræða. Sundurliðun á hverja stofnun má sjá í meðfylgjandi yfirliti:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Á framangreindu fyrirkomulagi er að finna eftirfarandi undantekningar/skýringar:
     *      Umhverfisstofnun réð starfsmann stofnunarinnar í launþegasambandi til að ræsta hluta húsnæðis stofnunarinnar í þrjá mánuði á árinu 2019.
     *      Vatnajökulsþjóðgarður er með margar litlar starfsstöðvar víðs vegar um landið og í þeim tilfellum er það hluti af reglubundnu starfi þjónustufulltrúa og landvarða að ræsta viðkomandi starfsstöðvar. Ekki er haldið sérstaklega utan um þann kostnað.
     *      Stofnun Vilhjálms Stefánssonar er með gamlan leigusamning við Ríkiseignir vegna húsnæðis í Borgum á Akureyri þar sem kostnaður vegna ræstinga er innifalinn í leiguverði og ekki sérstaklega tilgreindur. Áætlað er að árlegur ræstingarkostnaður stofnunarinnar sé um 300.000 kr.
     *      Hlutfallslega hár ræstingarkostnaður Þjóðgarðsins á Þingvöllum skýrist af miklum fjölda ferðamanna á Hakinu á Þingvöllum. Ræsta þarf hluta húsnæðis á Hakinu a.m.k. tvisvar á dag árið um kring.
    Samkvæmt innsendum gögnum nam heildarkostnaður vegna ræstinga hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti og stofnunum þess um 69.155.105 kr. á árinu 2019 sem skiptist þannig að kostnaður vegna aðkeyptrar þjónustu nam 68.259.115 kr. og kostnaður vegna starfsmanns á launaskrá nam 895.990 kr.

     2.      Á hvaða hátt tryggir verkkaupi að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða í þeim tilvikum þegar ræstingu er útvistað?
    Í útboðsskilmálum Ríkiskaupa vegna útboðs á ræstingarþjónustu fyrir ráðuneytið (gegnum Umbru, þjónustumiðstöð Stjórnarráðsins) er gerð krafa um að verktaki tryggi að allt starfsfólk hans njóti launa og starfskjara í samræmi við gildandi kjarasamninga hverju sinni. Þá skulu aðstæður starfsfólks vera í samræmi við löggjöf á sviði vinnuverndar. Óski verkkaupi þess skal verktaki leggja fram gögn þessu til staðfestingar.
    Við vinnslu á svari við þessum lið fyrirspurnarinnar var óskað eftir því við stofnanir umhverfis- og auðlindaráðuneytisins að þær upplýstu um með hvaða hætti þær tryggðu að ekki væri um félagsleg undirboð að ræða í tengslum við aðkeypta ræstingarþjónustu.
    Á grunni svara frá stofnunum ráðuneytisins er það metið þannig að um helmingur þeirra hafi tryggt, eins og kostur er, að ekki sé um félagsleg undirboð að ræða við kaup á ræstingarþjónustu. Ráðuneytið hyggst hnykkja á því við stofnanir þess að þær komi sér upp ásættanlegu mati svo að tryggt sé að aðkeypt þjónusta á þeirra vegum stuðli ekki að félagslegum undirboðum.